Hveitikím

05/04/2017
Hveitikím

Hveitikím (e. wheat germ) er ein næringarríkasta fæðutegund sem fyrirfinnst. Hveitikím inniheldur 23 næringarefni og magn næringarefna í hverju grammi er meira en í nokkru öðru grænmeti eða korni. Vegna þess að hveitikím er svo ríkt af næringarefnum, vítamínum, járni og trefjum er hægt að leggja að jöfnu u.þ.b. 30 g af hveitikími og 250 g af grænmeti sem eru góðar fréttir fyrir þá sem þurfa að auka magn grænmetis í fæðunni og ekki síður fyrir þá sem þurfa að skera niður neyslu á einföldum kolvetnum.

Hægt er að útbúa uppáhaldsréttina úr hveitikími á nýjan og næringarríkari hátt án hveitis og sykurs, t.d. í brauð, pítsubotna, kexkökur og margt fleira.

 

Hvað er hveitikím?

Hveitikím er „hjarta“ hveitikjarnans, fóstur hveitifræsins, og verður oftast til sem aukaafurð við mölun hveitis. Kímið er fjarlægt úr hvítu hveiti og flestum tegundum heilhveitis vegna þess að olíur í kíminu oxast og stytta geymsluþol hveitisins verulega. Hveitikím er prótínríkt og inniheldur meira prótín en er að finna í flestum kjötvörum, það er því sérstaklega gott fyrir þá sem borða lítið eða ekkert af kjöti. Magn næringarefna í hveitikíminu virðist endalaust; það inniheldur meira magn kalíums og járns en nokkur önnur fæðutegund og einnig inniheldur það mikilvægar fitusýrur, ríbóflavín, kalsíum, sink, magnesíum og A-, B1- og B3-vítamín í miklu magni. B1- og B3-vítamín eru mjög mikilvæg til að viðhalda jafnri orku og heilbrigði vöðva, innri líffæra, hárs og húðar.

Annað mikilvægt vítamín sem finnst í hveitikími er E-vítamín en það er mjög mikilvægt andoxunarefni sem talið er hægja á öldrun og geta komið í veg fyrir hjartasjúkdóma auk þess sem það dregur úr streitu. E-vítamín hjálpar líkamanum einnig að koma í veg fyrir blóðtappa og gegnir mikilvægu hlutverki við styrkingu ónæmiskerfisins.

Vegna þess hve mikið er af flóknum kolvetnum og prótíni í hveitikími er það einstaklega gott fyrir uppbyggingu vöðva og vegna magns vítamína og fitusýra er hveitikím hið fullkomna fæðubótarefni fyrir vaxtaræktarfólk og íþróttaiðkendur. Rannsóknir hafa sýnt að neysla á hveitikími hjálpar til að halda líkamanum í toppstandi og margir íþróttamenn nota það í mataræði sínu til að bæta starfssemi hjarta- og æðakerfis og bæta þol. Þeir sem hafa ofnæmi eða óþol fyrir glúteni ættu þó að fara varlega í neyslu á hveitikími því það inniheldur örlítið af hinu klístraða glúten-prótíni.

Hveitikím er hægt að kaupa bæði þurrkað og ferskt. Þurrkað hveitikím er dökkbrúnt en það ferska er ljóst og er alltaf geymt í kæli í þeim verslunum þar sem það fæst. Alltaf ætti að geyma hveitikím í kæli eftir að pakkinn hefur verið opnaður, þetta á líka við um þurrkað hveitikím.

Hveitikím hegðar sér mjög ólíkt hveiti við bökun. Það lyftir sér illa og þarf nokkuð langan tíma til að verða fullbakað þegar það er notað eitt og sér. Útkoman verður því yfirleitt nokkuð þunn brauðsneið eða kaka. Best að sleppa blæstri á ofnum sem bjóða upp á þann möguleika.

 

Hveitikímklattar

  • 45gr hveitikím
  • Sjávarsalt (hvítlauksduft, pipar, salt…….. )

Vatn þannig að þetta verði eins og þykkur hafragrautur

Ég setti svo graskersfræ út í

Hent á pönnu og steikt á báðum hliðum…         … og taramm ready 🙂

 

Hveitikímsbollur

  • 5dl fínt spelt
  • 6 dl gróft spelt
  • 1 dl hveitikím
  • 1 tsk salt – Herbamar
  • 1 tsk hrásykur (eða agave sýróp)
  • 1 pk þurrger – Rapunzel
  • 1/2 l haframjólk/ hrísgrjónamjólk
  • 1 msk kókosolía / ólífuolía
  • 1 dós lítil kotasæla

Mjólkin hituð þar til hún er ilvolg og geri og sykri bætt út í og hrært vel saman við. Blandið þurrefnunum saman í skál og bætið germjólkinni varlega saman við. Bætið olíu og kotasælu út í og hrærið saman við. Látið hefast í rúmlega 30 mín. Bætið smá hveiti við deigið þegar það hefur hefast. Betra er að hafa deigið frekar blautt því þá verða bollurnar mýkri. Mótið bollur og bakið í 15 mínútur við 200° C

 

Hveitikímbollur

  • 120 gr hvetikím
  • slatti af sesamfræjum
  • pínu salt
  • ein tsk. matarsódi
  • vatn þannig að þetta verður eins og þykkur hafragrautur

Allt blandað saman og hrært með sleif…   sett á plötu ( 4 kökur 30 gr hver, bakað við 200°c í ca. 30 mín. Það má setja krydd og annað í þetta ef maður vill.