Magasýrur og meltingarensím

05/01/2017
Magasýrur og meltingarensím

Fólk með veikt meltingarkerfi og þarmaflóru hefur yfirleitt alltaf litla magasýrumyndun.

Magasýra sem magaveggurinn myndar, virkjar pepsín, ensím sem brýtur flókin prótein niður í peptíð og amínósýrur.

Til þess að pepsín geti unnið starf sitt þarf pH gildi magans að vera 3 eða minna, maginn er alltaf súrari en líkaminn og á að vera um 3 í pH gildi.

Þegar um magasýru skort er að ræða myndast ekki nógu mikil sýra, og pH gildi magans er þar af leiðandi ekki nógu lágt til þess að pepsín geti unnið starf sitt almennilega.

 

Þau prótein sem hafa verið mest rannsökuð í kringum þetta er glúten og kasein (kasein er mjólkurprótein).  Vegna lítillar magasýrumyndunar fer melting próteina úr skorðum strax frá byrjun meltingarkerfisins. Próteinin fara frá maganum í smáþarmana. Þarmaveggurinn og meltingarensím frá brisi, sem koma við sögu í frekari niðurbroti próteina, geta ekki unnið starf sitt nema pepsin hafi brotið þau niður í maganum. Þetta er eins og færibanda vinna … ef fyrsti starfsmaðurinn klikkar þá skiptir eigilega engu máli hvernig hinir vinna vinnuna sína, mjög líklegt er að útkoman verði ekki góð…. en það sem gerist í líkamanum er að „hinir starfsmennirnir við færibandið“ geta ekki unnið starf sitt vegna þess að starf þeirra stjórnast af fyrsta starfsmanninum. Fyrsti starfsmaðurinn er magasýran.

 

Færni lifrarinnar og brissins til að brjóta niður fæðuna niður stjórnast af magasýrunni. Við eðlilegar aðstæður verður fæða, sem kemur frá maga inn í skeifugörn, að hafa pH gildið 2 eða minna til að örva myndun tveggja mjög mikilvægra hormóna í meltingarferlinu. Veggur skeifugarnarinnar myndar þessi hormón, sem eru frásogin í blóðið og berast með því til brissins, lifrarinnar, magans og margra annarra líffæra líkamans. Mikilvægasta starf þessara hormóna er að örva brisið. Þessi tvö hormón sem myndast eru svo mikilvæg meltingu fæðunnar að án þeirra meltist fæðan ekki. Því miður er það ákkurat það sem gerist í einstaklingi með litla magasýrumyndun. Fæðan sem kemur frá maganum er ekki nógu súr til að koma af stað myndun þessara mikilvægu hormóna. Þetta leiðir til þess að brisið myndar ekki meltingarsafa og gallblaðran losar ekki gall til að vinna á fitunni í fæðunni. Fæðan er því vanmelt og frásogast illa. Vanmelt prótein myndast og eru frásogin í gegnum skemmdan þarmavegginn og virka svo eins og ópíumefni í heilanum. Önnur vanmelt prótein valda ofnæmi og sjálfsónæmisviðbrögðum og veikja ónæmiskerfið mikið. Mikið af nauðsynlegum vítamínum, amínósýrum og steinefnum eru ekki frásogin, sem leiðir til næringarskorts. Vanmelt kolvetni nýtast óheilbrigðu þarmaflórunni sem umbreytir þeim í alkahól og önnur eiturefni. Fitan meltist ekki, sem gerir það að verkum að einstaklinginn skortir afar mikilæg fituleysanleg vítamín (A,D, E og K) og lífsnauðsynlegarfitusýrur, og hægðir verða fölar og fljótandi eða viðkomandi fær niðurgang. Ómelt fæða rotnar einfaldlega í meltingarveginum og eitrar allan líkamann.

Fyrir utan að bókstaflega eyðileggja allt meltingarkerfið, hefur skortur á magasýru aðrar afleiðingar sem eru mjög alvarlegar….  Magasýran verndar okkur fyrir örverum sem koma í miklu magni með mat og drykk. Ef sýran í maganum er ekki nógu mikil hafa þessar örverur góða möguleika á að komast í þarmana þar sem þær mynda þyrpingu og valda vandræðum.  Þær geta meira að segja fjölgað sér í maganum og meinvirkar tækifærisbakteríur og sveppir geta vaxið á magaveggnum eins og Helicobacter pylori, Campylobacter pylori, Enterobacteria, Candida, Salmonella, E. coli, Streptococi og fleiri. Flestar rannsóknir á þessu sviði hafa verið gerðar á sjúklingum með magakrabbamein, meirihluti þeirra er með litla magasýrumyndun. Örverur, sem vaxa í maga með litla magasýru, leika stórt hlutverk í að valda magakrabbameini, magasárum og magabólgum.

Þessar örverur nærast helst á kolvetnum, sérstaklega unnum kolvetnum. Niðurbrot kolvetna byrjar í munninum. Þegar fæða kemur í magann hættir þetta niðurbrot fyrir tilstilli magasýru. Kolvetni eru því ekki melt fyrr en þau koma í skeifugörn. En þetta ferli er óeðlilegt í einstaklingum með litla magasýrumyndun. Örverur sem eru til staðar í maga með litla magasýru byrja að gerja kolvetnin í fæðunni. Við gerjunina myndast oft eiturefni og gastegundir.

Þessvegna tel ég nauðsynlegt fyrir einstakling með slæma meltingu að taka inn bætiefni sem innihalda magasýru. Bætiefnið ætti að taka inn fyrir hverja máltíð. Margir taka eftir að hægðir þeirra verða betri eftir einungis nokkra daga á bætiefninu.

Fyrir utan bætiefni sem innihalda magasýru þá eru til náttúrulegar leiðir til að örva magasýrumyndun. Kálsafi hefur td sterk örvandi áhrif á magasýrumyndun. Að taka inn nokkrar skeiðar af kálsafa eða borða smávegis kál fyrir máltíð mun hjálpa til við meltingu fæðunnar. Súrkál og súrkálsafi hafa jafnvel enn sterkari örvandi áhrif á magasýrumyndun…  jafnvel hefur reynst vel að drekka heimatilbúið kjötsoð með matnum til að auka magasýruna.

En svo er náttúrulega málið að reyna að neyta sem mest af ensímun í gegnum fæðuna almennt. Hrátt grænmeti, ávextir hnetur og fræ innihalda mikið magn af ensímum og ef við neytum hrás fæðis sér meltingin svo að segja um sig sjálf, þ.e. hrátt næringarríkt fæði þarfnast ekki orku frá líkamanum til niðurbrots í nýtanlega fæðu. Mest af unnum mat er sneyddur ensímum. Í stað þess að gefa orku tekur hann orku frá líkamanum til þess að brjóta matinn niður og þá gengur á sparireikninginn.

 

Meltingarensím

Haft hefur verið á orði að í upphafi lífsins sé okkur gefinn sparireikningur með birgðum ensíma. Ef engir vextir eru á reikningnum eða hlúð að honum að öðru leyti gengur hann sér á endanum til þurrðar. Eins og mataræði nútímamannsins er háttað klárast ensímin á sparireikningnum löngu áður en yfir lýkur. Margir eru á því að virkni ensíma á mannslíkamann verði eitthvert heitasta heilsufræðilega umræðuefni 21. aldarinnar.

 

Hvað eru ensím?

Ensím, þekkt í íslenskri þýðingu sem hvatar, eru aðallega tvenns konar í líkama okkar; efnaskiptaensím og meltingarensím. Efnaskiptaensím eru einkanlega fyrir frumu og líkamskerfið en meltingarensím, eins og nafnið ber með sér, fyrir meltinguna. Munnurinn, maginn, brisið, lifrin og þarmarnir framleiða margskonar meltingarensím með það hlutverk að brjóta niður fæðuna í einingar sem líkaminn getur nýtt sér. Efnaskiptaensím nota svo næringarefnin sem meltingarensímin hafa brotið niður í meltingarveginum, svo framarlega sem eðlileg melting hafi átt sér stað.

Þriðja hópinn af ensímum fáum við svo úr fæðunni en þau eru helst að finna í hráu fæði eins og t.d. grænmeti, ávöxtum, hnetum og fleiru

 

Skortseinkenni?

Einkenni skorts á ensímum eru t.d, loftmyndun, uppþemba, brjóstsviði, magaverkur, að vera pakksaddur eftir nokkra bita, krampar í þörmum, ófullnægt hungur, þreyta og svefnleysi.

Þótt þessi einkenni kunni að vera algeng eru þau alls ekki ásættanleg því fæðu er ætlað að gefa okkur orku en ekki gera okkur þreytt.

Mörgum heimildum ber svo saman um að alvarlegri skorteinkenni séu t.d síþreyta og ótímabær öldrun.

Hvernig getur inntaka ensíma hjálpað?

Þau tryggja hámarks nýtingu næringarefna úr fæðunni

Hvíla brisið og hjálpa því að koma sér í lag

Orkan eykst þar sem næringarefnin úr fæðunni nýtast betur

Þau hjálpa líka heilbrigðu fólki að verða enn heilbrigðara. Með viðbótarensímum verður til aukaorka.

 

Hvað gerist?

Með inntöku ensíma ná þarmarnir loks eðlilegri virkni og virka betur en nokkru sinni fyrr. Það finnur fólk m.a. á því að það skilar frá sér miklu meiru en það hefur áður gert, þ.e. hægðum – vegna þess að ensímin brjóta betur niður matinn. Að sama skapi hverfur hungurtilfinningin. Það stafar að því að næringin úr fæðunni nýtist líkamanum betur.

 

Heimildir héðan og þaðan en aðallega héðan:

Dr. Natasha Campbell-McBride MD, MMedSci, MmedSci: Meltingarvegurinn og geðheilsa.

  1. Bateson-Koch, DC, ND, Allergies: Disease in Disguise.

Dr. W. Shaw: Biological Treatments for Autism and PPD.