Ertu með höfuðið á réttum stað ?

24/04/2017
Ertu með höfuðið á réttum stað ?

 

Við höfum tekið eftir mikilli aukningu á vandamálum varðandi háls og herðar hjá nýjum skjólstæðingum sem leita til okkar í fjarþjálfun og erum óþægnilega oft farin að finna hnúð á neðri hluta háls eða ofarlega milli herðablaðanna.

„Hvað er þetta eiginlega?“ eru við oftast spurð þegar við bendum skjólstæðingum okkar á þessa augljósu staðreynd að höfuðið sé bara ekki á réttum stað.

Eðlilegt er að finna örlítið hak á milli C6 og C7 hryggjaliðanna en við erum að tala um svolítið meira en örlítið og jafnvel vökvasöfnun í kring, sem sagt framstætt höfuð.

Ástæðurnar fyrir þessum hnúa geta verið að margvíslegum toga: lyfjagjöf, vökvasöfnun, slæm líkamsstaða, slys, ofþyngd eða jafnvel erfðatengt.

Í grunninn er höfuðið 5-6 kg en bara það að tékka létt á símanum þyngist það töluvert, hvað þá að vinna við tölvuna fleiri klst á dag.

Röng höfuðstaða getur valdið ýmsum kvillum t.d. verkjum, vöðvabólgu, þreytu í höfði, höfuðverk, spennu í kjálka svo eitthvað sé nefnt. Flest þessara einkenna er því miður yfirleitt reddað í byrjun með verkja- og bólgueyðandi lyfjum.

 

Hugaðu að líkamsstöðunni, gömul tuga en í alvöru!

 

Með því að huga ekki að stöðunni á hálsinum sköpum við stöðuga vöðvaspennu í efri hluta baks til að vinna á móti þunga höfuðsins. Við þetta ástand bætist síðan framstæðar axlir og svakalegt álag á Sternocleidomastoid vöðvann sem er stærsti yfirborðsvöðvi hálsins og sér um hreyfingar höfuðsins til hliðar, upp og niður.

Algeng orsök mikillar vöðvaspennu í höfði teljum við vera stöðuga spennu í liðamótum höfuðs og háls (Atlas og Os occipitalis), þessi liðamót sjá um hreyfanleika háls ásamt Sternocleidomastoid vöðvanum.

 

Prófaðu að strjúka niður hálsliðina, ef þú hefur hugað vel að líkamsstöðunni ættir þú að geta rennt fingrunum niður hálsinn nokkuð pent, án þess að lenda á haki eða hól.
Það hefur orðið 350 % aukning á lýtaaðgerðum á aftanverðum hálsi til að fjarlægja fituhnúðinn sem vill setjast þar kringum bólgurnar síðan 2012.

 

Hvað er síðan til ráða, er hægt að vinna þetta til baka?

Já það er hægt að vinna líkamsstöðuna til baka í flestum tilfellum, sem betur fer, en það getur tekið tíma, líklega tók nú alveg tíma að rugla líkamsstöðuna.

 

  1. Stundaðu styrktarþjálfun, beinagrindin er spilaborg án vöðvanna.

  2. Liðkaðu þig til

  3. Réttu úr þér

  4. Rúllaðu þig upp

  5. Teygðu

  6. Og einbeittu þér að líkamsstöðunni. Heilsan er ekkert sem við dettum bara um.